154. löggjafarþing — 107. fundur,  6. maí 2024.

raunfærnimat.

733. mál
[17:53]
Horfa

mennta- og barnamálaráðherra (Ásmundur Einar Daðason) (F):

Virðulegur forseti. Líkt og með fyrri fyrirspurn þá vil ég þakka hv. þingmanni fyrir þetta og segja að það er gríðarlega mikilvægt að við nálgumst þetta með sama hætti, og þingmaðurinn fór ágætlega yfir mikilvægi raunfærnimats í skólakerfinu. Ég ætla að reyna að svara þeim spurningum sem sérstaklega var beint að mér en það var spurt m.a. hvert hlutverk ráðuneytisins og stofnana þess væri er varðaði raunfærnimat. Í lögum um framhaldsskóla er kveðið á um að nemandi sem innritast í framhaldsskóla eigi rétt á því að raunfærni hans sé metin til náms og námseininga, enda falli metin raunfærni að námskrá og námsbrautarlýsingu viðkomandi skóla. Viðurkennda raunfærni sem metin er sem fellur utan brautarkjarna ber að meta síðan sem valgreinar. Í aðalnámskrá framhaldsskóla er líka að finna umfjöllun um raunfærnimat inn á námsbrautir framhaldsskóla en að öðru leyti er kveðið nánar á um raunfærnimat í sérstakri reglugerð um framhaldsfræðslu sem er frá árinu 2011 sem að efni til heyrir í dag undir félags- og vinnumarkaðsráðuneyti og þar af leiðandi annan ráðherra en þann sem hér stendur.

Við höfum lagt áherslu á að vinna með fræðslumiðstöð atvinnulífsins að þessum málum og gert sérstakan samning við fræðslumiðstöð atvinnulífsins, þ.e. mennta- og barnamálaráðuneyti, til að stuðla að áframhaldandi samstarfi milli framhaldsfræðslunnar og framhaldsskólanna í tengslum við einmitt raunfærnimatið. Það er mjög mikilvægt að tryggja góða samfellu milli raunfærnimats og framhaldsskóla og á grundvelli þessa samnings sem ég vitnaði hérna til, á milli ráðuneytisins og fræðslumiðstöðvarinnar, er núna verið að vinna tilraunaverkefni í samstarfi við Borgarholtsskóla í Grafarvogi sem er einstaklega framsækinn og flottur skóli. Þetta tilraunaverkefni snýr að því að þróa leiðir fyrir raunfærnimat innan framhaldsskólans. Markmiðið er að við munum vinna með afurð þessa verkefnis og fyrstu niðurstöðurnar ættu að liggja fyrir núna í sumar og þá er hægt að vinna úr þeim og taka ákvörðun um næstu skref.

Af því að ég vitnaði til Menntamálastofnunar áðan er rétt að geta þess að Menntamálastofnun var með ákveðin stjórnsýsluverkefni sem sneru að framhaldsfræðslunni sem vörðuðu m.a. það að votta námskrár og námslýsingar ásamt því að viðurkenna fræðsluaðila á grundvelli laga um framhaldsfræðslu. En með gildistöku laga um Miðstöð menntunar og skólaþjónustu, sem tók til starfa 1. apríl, var ekki gert ráð fyrir því að þessi nýja stofnun tæki við þessum framangreindu verkefnum, en jafnframt er rétt að taka fram hér að — þannig að hún hafði þau hlutverk en það er rétt að taka það fram hér að félags- og vinnumarkaðsráðuneyti stendur fyrir heildarendurskoðun á framhaldsfræðslunni núna eins og vitnað var til og þar á meðal fyrirkomulagi verkefna sem snúa að vottun námskráa og námslýsinga og viðurkenningu fræðsluaðila. Í ljósi framangreinds og til að tryggja samfellu í þjónustu þar til heildarendurskoðuninni lýkur hefur félags- og vinnumarkaðsráðuneyti falið mennta- og barnamálaráðuneyti að sinna þessum verkefnum á grundvelli þessarar lagagreinar í framhaldsfræðslunni og um þetta er gott samstarf á milli ráðuneytanna þótt framhaldsfræðslan hafi flust yfir til félagsmálaráðuneytisins við myndun síðustu ríkisstjórnar.

Hverjar eru skyldur framhaldsskóla til að leiðbeina fólki sem lokið hefur raunfærnimati um leiðir til að bæta við sig námi til að öðlast starfsréttindi hér á landi? Framhaldsskólinn á að leiðbeina nemendum sem eru innritaðir í skólann á hverjum tíma, það segir í lögum um framhaldsskóla. Aukið samstarf á milli framhaldsfræðslunnar og framhaldsskóla um framkvæmd raunfærnimats sem við vinnum nú að ætti að geta stuðlað að því að nemendur fái náms- og starfsráðgjöf við hæfi til að halda áfram á sinni menntabraut. Það er óhætt að segja að bæði mennta- og barnamálaráðuneyti og félags- og vinnumarkaðsráðuneyti, við fylgjumst mjög náið með þessu tilraunaverkefni í Borgarholtsskóla og milli fræðslumiðstöðvar atvinnulífsins og væntum þess að afurð þess verkefnis verði að þróa enn frekari leiðir fyrir fólk sem lokið hefur raunfærnimati.

Að lokum var spurt: Hverjar eru skyldur framhaldsskóla til að bjóða upp á námskeið eða námsleiðir sem fólk sem lokið hefur raunfærnimati kann að vanta til að öðlast starfsréttindi hér á landi? Framhaldsskólar hafa í raun engar formlegar skyldur í þeim efnum en í aðalnámskrá segir að lögð verði áhersla á mikilvægi þess að þátttakendur í framhaldsfræðslu sem óska eftir að snúa til baka í formlegt nám í framhaldsskóla fái námið metið eins og kostur er, þannig að þessi verkefni sem við vinnum að núna í samstarfi eru gríðarlega mikilvæg og ég held að það sé rétt og þingmaðurinn vitnaði til þess að hún væri að beina þessu til fleiri ráðherra af því að þetta liggur víða og heildarmyndin er víða og þessi púsl sem koma væntanlega í samtölum við fleiri ráðherra munu tengjast saman.